prentvæn útgáfa ID-Bókun 11

BÓKUN 11
UM GAGNKVÆMA AÐSTOÐ Í TOLLAMÁLUM

1. gr.
Skilgreiningar

Að því er varðar þessa bókun merkir:

a) „tollalöggjöf“ gildandi ákvæði á yfirráðasvæði samningsaðila um innflutning, útflutning og umflutning vöru og meðhöndlun hennar samkvæmt hvaða tollareglum sem er, að meðtöldu banni, takmörkunum og eftirliti sem áðurnefndir aðilar samþykkja;


b) „tollar“ alla tolla, skatta, þóknanir og önnur gjöld sem lögð eru á og innheimt á yfirráðasvæði samningsaðila samkvæmt tollalöggjöf, þó ekki þóknanir og gjöld sem takmarkast við áætlaðan kostnað veittrar þjónustu;


c) „yfirvald sem sækir um“ lögbært stjórnvald skipað af samningsaðila til þess að sækja um aðstoð í tollamálum;


d) „yfirvald sem leitað er til“ lögbært stjórnvald skipað af samningsaðila til þess að taka við beiðnum um aðstoð í tollamálum;


e) „brot“ hvert brot á tollalöggjöf svo og hverja tilraun til þess að brjóta slíka löggjöf.
2. gr.
Gildissvið
1. Samningsaðilum ber að veita hver öðrum gagnkvæma aðstoð, á þann hátt og með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í þessari bókun, við að tryggja að farið sé að tollalöggjöf, einkum með því að koma í veg fyrir, uppgötva og rannsaka brot á löggjöfinni.

2. Aðstoð í tollamálum, eins og kveðið er á um í þessari bókun, gildir um hvert það stjórnvald samningsaðila sem hefur vald til að beita ákvæðum þessarar bókunar. Hún hefur ekki áhrif á reglur um gagnkvæma aðstoð í sakamálum.
3. gr.
Aðstoð samkvæmt beiðni
1. Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til veita því allar viðeigandi upplýsingar svo að það geti tryggt að farið sé að tollalöggjöf, þar á meðal upplýsingar um starfsemi sem tekið hefur verið eftir eða skipulögð og stríðir eða gæti strítt gegn slíkri löggjöf.

2. Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til láta vita hvort útflutningsvörur frá yfirráðasvæði eins samningsaðila hafi verið fluttar inn á yfirráðasvæði annars aðila á réttan hátt, og tilgreina, eftir því sem við á, eftir hvaða tollareglum vörurnar voru meðhöndlaðar.

3. Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að eftirlit sé haft með:

a) einstaklingum eða lögpersónum ef réttmæt ástæða er til að ætla að þeir brjóti eða hafi brotið tollalöggjöf;


b) vöruflutningum ef tilkynnt hefur verið að þeir geti haft í för með sér alvarlegt brot á tollalöggjöf;


c) flutningatækjum ef réttmæt ástæða er til að ætla að þau hafi verið notuð, séu notuð eða geti verið notuð við brot á tollalöggjöf.
4. gr.
Aðstoð án beiðni
Samningsaðilar skulu eftir því sem þeir eru færir um slíkt veita hver öðrum aðstoð telji þeir það nauðsynlegt við beitingu á tollalöggjöf, einkum þegar þeir fá upplýsingar sem lúta að:

– starfsemi sem hefur strítt gegn, stríðir gegn eða gæti strítt gegn slíkri löggjöf og gætu verið gagnlegar öðrum samnings-aðilum;


– nýjum úrræðum eða aðferðum sem beitt er til þess að komast að slíkri starfsemi;


– vörum sem vitað er að tengjast alvarlegu broti á tollalöggjöf um innflutning, útflutning, umflutning eða öðrum tollareglum.
5. gr.
Afhending/Tilkynningar
Að beiðni yfirvalds sem sækir um skal yfirvald sem leitað er til gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við löggjöf sína til þess að:

– afhenda öll skjöl;


– tilkynna allar ákvarðanir;


sem heyra undir gildissvið þessarar bókunar til viðtakanda sem er búsettur eða hefur staðfestu á yfirráðasvæði þess.
6. gr.
Form og efni aðstoðarbeiðna
1. Beiðnir sem eru lagðar fram samkvæmt þessari bókun eiga að vera skriflegar. Nauðsynleg skjöl fyrir framkvæmd slíkrar beiðni skulu fylgja henni. Í brýnum tilvikum er leyfilegt að samþykkja munnlegar beiðnir en þær verður þegar í stað að staðfesta skriflega.

2. Beiðnir sem lagðar eru fram samkvæmt 1. mgr. eiga að fela í sér eftirfarandi upplýsingar:

a) hvaða yfirvald sækir um;


b) hvaða ráðstöfun farið er fram á;


c) markmið með og ástæða fyrir beiðninni;


d) hvaða lög, reglur og annar lagagerningur eru málinu viðkomandi;


e) upplýsingar sem eru eins nákvæmar og tæmandi og hægt er um einstaklinga og lögaðila sem rannsóknin beinist að;


f) yfirlit yfir þau atriði sem málið varða, nema í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 5. gr.

3. Beiðnir skulu lagðar fram á opinberu tungumáli þess yfirvalds sem leitað er til eða á tungumáli sem það yfirvald samþykkir.

4. Ef beiðni fullnægir ekki kröfum um form, er hægt að fara fram á að hún verði leiðrétt eða að lokið verði við hana; þó er hægt að fara fram á að varúðarráðstafanir verði gerðar.
7. gr.
Beiðnum framfylgt
1. Til þess að framfylgja beiðni um aðstoð skal yfirvaldið sem leitað er til eða, ef það er ekki einfært um að bregðast við, stjórnsýsludeild sem það hefur beint beiðninni til, veita fyrirliggjandi upplýsingar, annast viðeigandi rannsókn eða láta rannsókn fara fram, eftir því sem það er fært um og með tiltækum ráðum, eins og það væri að bregðast við að eigin frumkvæði eða að beiðni annarra yfirvalda sama samningsaðila.

2. Beiðnum um aðstoð verður framfylgt í samræmi við lög, reglur og annan lagagerning samningsaðilans sem leitað er til.

3. Embættismenn með löglegt umboð samningsaðila geta, með samþykki annars hlutaðeigandi samningsaðila og með skilyrðum sem síðarnefndi aðilinn setur, fengið frá skrifstofum yfirvaldsins sem leitað er til eða annars yfirvalds sem það ber ábyrgð á upplýsingar um brot á tollalöggjöf sem yfirvaldið sem sækir um þarf á að halda vegna þessarar bókunar.

4. Embættismenn samningsaðila geta, með samþykki annars samningsaðila, verið viðstaddir rannsókn sem fram fer á yfirráðasvæði hins síðarnefnda.
8. gr.
Hvernig upplýsingum er komið á framfæri
1. Yfirvald sem leitað er til skal senda niðurstöður rannsókna til yfirvalds sem sækir um í formi skjala, vottfestra afrita skjala, skýrslna og sambærilegra gagna.

2. Í staðinn fyrir skjölin sem kveðið er á um í 1. mgr. geta komið hvers kyns tölvugögn sem útbúin eru í sama skyni.
9. gr.
Undantekningar frá þeirri skyldu að veita aðstoð
1. Samningsaðilar geta neitað að veita þá aðstoð sem kveðið er á um í þessari bókun þegar hún myndi:

a) vera líkleg til að hafa áhrif á fullveldi, allsherjarreglu (l’ordre publique), öryggi eða aðra mikilvæga hagsmuni; eða


b) vera til þess að beita þurfi öðrum reglugerðum um gjaldmiðil eða skatta en þær sem varða tolla; eða


c) vera til þess að upp komist um leyndarmál á sviði iðnaðar, viðskipta eða fagstarfsemi.

2. Þegar yfirvald sækir um aðstoð sem það væri sjálft ekki fært um að veita ber ef um væri beðið að vekja athygli á því í beiðninni. Yfirvald sem leitað er til ákveður hvernig slíkri beiðni er svarað.

3. Ef hætt er við aðstoð eða synjað um hana skal þegar í stað tilkynna það yfirvaldinu sem sækir um og geta um ástæðu fyrir synjuninni.
10. gr.
Trúnaðarskylda
Upplýsingar sem veittar eru í samræmi við þessa bókun, í hvaða formi sem það er gert, skulu vera trúnaðarmál. Þær heyra undir opinbera þagnarskyldu og njóta verndar í samræmi við viðeigandi lög sem gilda hjá samningsaðilanum sem fékk þær og samsvarandi ákvæði sem gilda um yfirvöld bandalagsins.
11. gr.
Notkun upplýsinga
1. Aðfengnar upplýsingar skal eingöngu nota vegna þessarar bókunar og þær má eingöngu nota í öðrum tilgangi hjá öðrum samningsaðila með fyrirfram skriflegu samþykki þess stjórnvalds sem veitti þær og skulu vera háðar þeim höftum sem það stjórnvald setur. Þessi ákvæði gilda ekki um upplýsingar varðandi brot í tengslum við fíknilyf og geðlyf. Slíkar upplýsingar má veita öðrum yfirvöldum sem beinlínis eiga í baráttu við ólöglega eiturlyfjasölu.

2. Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir notkun upplýsinga í hvers konar málarekstri af hálfu dómstóla eða stjórnvalda sem stofnað er til síðar vegna þess að ekki hefur verið farið að tollalöggjöf.

3. Samningsaðilar geta, í skráðum sönnunargögnum sínum, skýrslum og vitnisburði og málarekstri og kærum sem koma fyrir dómstóla, notað sem sönnunargögn upplýsingar sem fengist hafa og skjöl sem hafa verið skoðuð í samræmi við ákvæði þessarar bókunar.
12. gr.
Sérfræðingar og vitni
Veita má embættismanni yfirvalds sem leitað er til heimild til þess að mæta fyrir rétti, innan þeirra takmarkana sem í heimildinni felast, sem sérfræðingur eða vitni í málarekstri fyrir dómstólnum eða stjórnvöldum í málum sem þessi bókun tekur til í lögsagnarumdæmi annars samningsaðila, og að leggja fram hluti, skjöl eða staðfest afrit þeirra eftir því sem nauðsynlegt er vegna málareksturs. Í beiðni um mætingu verður að tilgreina sérstaklega í hvaða máli og á grundvelli hvaða stöðu eða hæfni embættismaðurinn verður yfirheyrður.
13. gr.
Kostnaður vegna aðstoðar
Samningsaðilar skulu fella niður allar kröfur á hendur hver öðrum um endurgreiðslu kostnaðar sem stofnað hefur verið til samkvæmt þessari bókun, nema, eftir því sem við á, greiðslur til sérfræðinga og vitna og til túlka og þýðenda sem eru ekki í þjónustu hins opinbera.
14. gr.
Framkvæmd
1. Framkvæmd þessarar bókunar skal falin annars vegar yfirstjórn tollyfirvalda EFTA-ríkjanna og hins vegar lögbærum þjónustustofnunum framkvæmdastjórnar EB og, eftir því sem við á, tollyfirvöldum aðildarríkja Evrópubandalagsins. Þessir aðilar skulu taka ákvarðanir um allar nauðsynlegar hagnýtar ráðstafanir og fyrirkomulag vegna beitingar hennar, með hliðsjón af reglum um verndun gagna. Þeir geta mælt með breytingum sem þeir telja að gera þurfi á bókuninni við lögbæra aðila.

2. Samningsaðilar skulu senda hver öðrum lista yfir lögbær yfirvöld sem eru skipaðir samskiptaaðilar við rekstrarlega framkvæmd þessarar bókunar. Í málum sem heyra undir valdsvið bandalagsins skal taka viðeigandi tillit hvað þetta varðar til ákveðinna aðstæðna sem, vegna þess hve knýjandi það er eða þeirrar staðreyndar að einungis tvö lönd eiga hlut að beiðni eða samskiptum, kalla á beint samband milli lögbærra þjónustustofnana EFTA-ríkja og aðildarríkja EB við meðferð beiðna eða upplýsingaskipti. Auk þessara upplýsinga skulu vera listar sem breytt er þegar nauðsyn krefur, yfir embættismenn þeirra þjónustustofnana sem bera ábyrgð á því að koma í veg fyrir, rannsaka og fást við brot á tollalöggjöf.

Að auki skulu samningsaðilar, til þess að tryggja hámarksárangur við framkvæmd þessarar bókunar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að þær deildir sem fást við brot á tollalöggjöf séu í beinu persónulegu sambandi, einnig þegar um er að ræða staðaryfirvöld, til þess að auðvelda upplýsingaskipti og meðferð beiðna.

3. Samningsaðilum ber að hafa samráð og veita síðan hver öðrum nákvæmar upplýsingar um þær framkvæmdarreglur sem samþykktar eru í samræmi við ákvæði þessarar greinar. {1}

{1} Sjá samþykktir.
15. gr.
Stuðningur
1. Bókun þessi á að styðja en ekki hindra beitingu samninga um gagnkvæma aðstoð sem gerðir hafa verið eða kunna að verða gerðir milli aðildarríkja EB og EFTA-ríkja og eins milli EFTA-ríkja. Hún skal ekki heldur koma í veg fyrir enn víðtækari aðstoð sem veitt er samkvæmt slíkum samningum.

2. Með fyrirvara um 11. gr. hafa slíkir samningar ekki áhrif á ákvæði bandalagsins um skipti lögbærra þjónustustofnana framkvæmdastjórnar EB og tollyfirvalda aðildarríkjanna á upplýsingum um tollamál sem gætu verið bandalaginu í hag.